Hugi Þórðarson

Endalok

Ég lá dottandi í letistólnum í gær þegar var bankað - nei - krafsað, í dyrnar hjá mér. Ég andvarpaði, viss um að þetta væri Frú Vigdís sem hefði aftur ruglast á sykurkarinu og rohypnol-karinu. Ég sótti adrenalínsprautu inn í skáp og fór til dyra.

En þegar ég opnaði dyrnar var það ekki Frú Vigdís, heldur Anna, sem lá í hrúgu við dyrnar hjá mér, svo sárgrátandi að gólfið var útmakað í augnskugga og hárið á henni leit út eins og afró-gone-terribly-wrong. Hún leit á mig og sagði "þe-he-he-heir dra-ha-ha-hápu Keeeen". Mér féllust algjörlega hendur, síðast skildi ég hana ekki fyrir brosi, nú skildi ég hana varla fyrir gráti. Kvenfólk.

Ég brosti fullur samúðar, Anna og sápuóperurnar hennar, hún lifir sig svo inn í þetta. Ég tók utan um hana og sagði "Svona svona, þetta var örugglega allt saman vondur draumur og Ken vaknar áreiðanlega í sturtu í næsta þætti, duddu duddu duddu, hérna er þurrka, viltu ekki snýta þér aðeins". Ég rétti henni vasaklút.

Anna snýtti sér kröftuglega með háværum trompettóni og leit svo skömmustulega á mig. Ég greip blautan vasaklútinn milli tveggja fingra og rétti henni annan. Hún snýtti sér aftur, tónninn var "des" í þetta skipti. Gott að hafa ágætis tóneyra stundum.

En svo bunaði hún út úr sér merkilegri sögu, að Ken (eða hugsanlega Ren. Eða Ben. Eða Stan. - ég náði nafninu ekki alveg milli ekkasoganna) væri ekki persóna í sápuóperu í sjónvarpinu, heldur hluti af sápuóperu lífsins. Og að hún elskaði hann. Og að hann hefði verið laminn í buff fyrir utan íbúðina hennar í gærmorgun.

Illur grunur læddist að mér og ég faldi blóðblett á buxunum mínum með annarri höndinni. "Hérna, er Ken (held að það sé nafnið) nokkuð svolítið líkur Jude Law?"

"Jaaaaaaááááá." *snökt, snökt snýt o.s.frv.*

Nú fór ég líka að gráta. Ég get ekki logið að Önnu. Og ég sagði henni sem var, að það var ég sem gerði úr honum kjötfars með golfkylfu. Anna horfði á mig ásökunaraugum, jafnvel þótt hún vissi að ég vildi vel. Og það var aðeins eitt sem ég gat gert í stöðunni, og það var að fara upp á spítala biðja Ken afsökunar á því að hafa reynt að myrða hann.

Þegar Anna var farin fór ég beint út í bíl og upp á Landspítala. Ég gekk að drýldinni konu í móttökunni og bað um að fá að hitta sjúkling með nafn sem rímaði við "en", og jú, það var einn "Ken" á staðnum og ég var sendur upp á þriðju hæð til hans. Þegar ég kom inn kannaðist ég strax manninn sem ég hafði lamið - hann var meðvitundarlaus.

En í því sem ég gekk að rúminu hrasaði ég um rafmagnssnúruna sem var tengd við öndunarvélina og reif megnið af rafverki herbergisins úr veggnum. Öndunarvélin stöðvaðist og ég horfði á Ken blána í framan meðan ég fátaði við vélina til að koma henni í samband aftur og öskraði á hjálp.

En ég gat ekkert gert. Ég horfði á Ken kippast til í svefninum - og svo færðist friðsæld yfir andlitið á honum.

Ég myrti Ken.