Hugi Þórðarson

Nightmare on Melstreet

Ég fékk aðra martröð síðustu nótt, þá fimmtu á tveimur mánuðum. Og ég sem hef sofið eins og barn síðan ég var barn og dreymir aldrei neitt nema skemmtilega steypu allar nætur - fljúgandi skógræktarbændur og talandi pottablóm og annað þess háttar.

En þessi var mögnuð og skildi mig eftir í algjöru rusli og ófæran um að sofna aftur, svona líka allt of snemma í morgun. Mér finnst að hún hljóti að hafa merkingu.

Nú langar mig að senda út sem allra fallegasta draumaráðningarbeiðni til sérfræðinganna sem hafa reynst mér svo vel hérna í gegnum tíðina. Já Baun, ég er að tala við þig :-). Ég fer ekki út í smáatriðin, en hér er það helsta:

Ég er heima hjá mér, íbúðin er myrkvuð og það er stormur geysandi úti. Skyndilega færist hann í aukana og verður skelfileg óhemja, ég finn kaldan gust blása inn meðfram gluggunum. Ég reyni að líta út, en á erfitt með að sjá hvað er að gerast fyrir hálflokuðum rimlagluggatöldum sem ég get ekki opnað betur. Það er eitthvað ógnvekjandi afl sem veldur storminum, en ég sé ekki hvað það er fyrir þeim.

Skyndilega er ég ekki lengur í íbúðinni minni heldur í stærra húsi. Það stendur fólk kyrrt hér og þar í húsinu, ástvinir mínir, og sama aflið og veldur storminum er að hrifsa þá til sín hvern af öðrum, þeir beinlínis hverfa fyrir augunum á mér. Ég er sorgmætur en ekki hræddur um að verða tekinn sjálfur. Fyrr en rétt undir lokin. Þá heyri ég kvenmannsgrát, fyllist lamandi skelfingu - og vakna þá skjálfandi.

Er þetta ráðanlegt? Og er ég að verða geðveikur?