Hugi Þórðarson

Einmitt núna

Della vikunnar snýst um píanó (sný mér aftur að Landróvernum í næstu viku).

Ég á í dag 15 ára gamalt Yamaha U3-píanó sem mamma og pabbi keyptu þegar lá fyrir mér að verða píanisti. Þetta er ótrúlegt hljóðfæri og ég elska það út af lífinu, enda sit ég og gæli við það með fingurgómunum í a.m.k. klukkutíma á dag. Yfirleitt lengur ef ég hef úthald.

En fyrir skömmu greip mig andartaks geðveiki og ég fór upp í Hljóðfærahús. Ég er nú bara mennskur. Ég kiknaði í hnjáliðunum við að snerta ung og stinn hljóðfæri og sveif út úr búðinni eftir klukkutíma afar fullnægður. Þarna voru ný U3-píanó sem eru jafn æðisleg og mitt gamla en er líka hægt að "þagga í" með að pota í þau heyrnartólum. Þá er hamraverkið aftengt þannig að þau breytast í rafmagnspíanó. Sem þýðir að ég gæti loksins refsað hljóðfærinu allan sólarhringinn án þess að eiga á hættu að nágrannarnir stjaksetji mig.

En svona hljóðfæri kostar litlar 900.000 krónur. Ég get að vísu sett gamla píanóið upp í á hálfa milljón. Og heimildin á VISA-kortinu mínu er einmitt 400.000 krónur. Þannig að í rauninni mundi þetta ekki kosta mig neitt einmitt núna, ekki satt?

Stundum vildi ég óska að ég hefði lært á munnhörpu.