Hugi Þórðarson

Utan við sig

Ég er búinn að vera haugalatur við skrif undanfarið, það er svo margt skemmtilegt hægt að gera þegar sólin skín úti. T.d. að forrita, ég er búinn að gera mikið af því. Og spila á píanóið, ég er búinn að gera enn meira af því.

En öll þessi misbeiting á gráu sellunum við kóða- og tónasmíðar hefur haft slæm áhrif á utanviðleika minn og þótt heimurinn utan Internetsins sé stundum kallaður "raunheimar", þá hefur höfuðið á mér aldrei verið fjær raunveruleikanum.

Þetta sannaðist yfir eldavélinni í kvöld. Ég var að steikja kjúklingabringur og milli þess sem ég hrærði í kjúklingnum sneri ég mér að eldhúsvaskinum til að vaska upp. Áður en ég vissi af var ég byrjaður að hræra í kjúklingnum með uppþvottaburstanum.

Ég uppgötvaði mistökin of seint. Þekki ekkert krydd sem felur bragðið af bráðnu næloni. En pizzan frá Eldsmiðjunni bætti þetta alveg upp.