Hugi Þórðarson

Alveg frábær dagur

Alveg tvímælalaust einn af þessum dögum. Fór og sótti sérsmíðuð myrkvunarluggatjöld fyrir svefnherbergisgluggana mína. Hljóp á glerhurð í búðinni. Keyrði heim með handbremsuna á. Datt í stiganum. Setti upp gluggatjöldin. Þau voru of mjó. Mældi gluggana. Þeir reyndust hafa breikkað óvænt um tvo sentimetra síðan ég mældi þá síðast. Gekk örna minna til að hugsa málið. Klósettpappírinn búinn. Rölti á hækjum mér um íbúðina í leit að einhverskonar þunnu trefjaefni, sinu eða bítetti, þar sem mér fannst ekki nógu virðulegt að setjast á baðgólfið og draga mig áfram á höndunum eins og hundur. Málið reddaðist um síðir.

En ég bara skil ekki þetta með gluggatjöldin, ég þrímældi gluggana. Eða jú, ég skil það vel - þetta er örugglega Önnu og Ken að kenna. Lætin á efri hæðinni eru slík að það hefur hreinlega tognað á blokkinni. Ég ætla að banka upp á hjá þeim í kvöld með reikning fyrir nýjum gluggatjöldum. Og hækkuninni á fasteignagjöldunum.