Hugi Þórðarson

Bakrak

Ég er búinn að vera með sérlega góða gesti undanfarna viku, þau Stebba og Stínu.

Mér finnst auðvitað frábært að hafa þau hjá mér, afar þægileg tilfinning að koma heim í íbúð sem er ekki tóm, en það sem hefur raunverulega gert það þess virði er að ég fékk Stebba til að raka á mér bakið í fyrradag - nokkuð sem ég er lengi búinn að þrá. Þ.e. að losna við hárið, ekki það að upplifa Stebba að raka á mér bakið.

Ég varð nefnilega kynþroska fljótlega eftir jól og fékk í kjölfarið skegg á bakið. Það er búið að valda mér miklum kláða og óþægindum - svo ekki sé minnst á hversu einstaklega lítið æsandi það er að vera með bak eins og andlitið á Hjörleifi Guttormssyni (loðið svona víðast hvar) - en nú, þökk sé Stebba get ég loksins strokið um frjálst bak.

Það var auðvitað öðruvísi reynsla að láta karlmann raka á sér bakið, en það er á svona stundum sem maður lærir að meta raunverulega vini, fólkið sem er reiðubúið að fórna sér fyrir mann. Og það sem ég gerði fyrir hann í staðinn var að kveikja ekki á kertum og setja ekki disk með Enyu á fóninn á meðan hann rakaði mig.

Ahhh, þetta er dásamlegt, ég er að strjúka fallega bakinu mínu í þessum skrifuðum orðum. Jújú, auðvitað gæti mér núna orðið kalt á bakinu þegar ég fer nakinn út að hlaupa á nóttunni, en eins og amma sagði alltaf, það er ekki hægt að búa til eggjaköku án þess að hafa nokkur egglos. En egg voru auðvitað munaðarvara þegar hún var ung. Og þannig er nú það.