Hugi Þórðarson

Heim

Ég brá mér til Neskaupstaðar um helgina og heimsótti fjölskylduna.

Já, ég á fjölskyldu. Þar með er endanlega hrakin kenning vinar míns um að ég sé í raun óguðlegt afkvæmi skyndikynna milli rauðhærðs Land Rover jeppa og Jackie Kennedy. Hann vill meina að ást mín á Land Rover sé í raun dulin leit að föðurímynd. En svo er ekki. Pabbi heitir Þórður og hann er ekki jeppi. Held ég.

En já, þetta var frábær helgi. Að heimsækja pabba og mömmu er eins og að fara á hæli, maður gerir ekkert annað en að borða góðan mat, melta góðan mat, spila á píanóið, ganga á fjöll, borða meira af góðum mat og melta meira af góðum mat. Og velta því svo fyrir sér hvaða góða mat á að borða næst, borða hann og melta hann, spila meira á píanóið og ganga svo á fleiri fjöll.

Semsagt. Fín helgi. Meðfylgjandi eru myndir af undirrituðum og systur í náttúrulegu umhverfi sínu (uppi á Nípukolli).