Hugi Þórðarson

Björgunaraðgerð á Hagamel

Ég sat í rólegheitum yfir bók í kvöld með illfygli heimilisins, Herra James, á öxlinni, nartandi í eyrað á mér. Eitthvað hefur eyrað bragðast illa (trúi því þó varla, hef aldrei fengið kvartanir), því skyndilega rak hann upp skræk, hóf sig til flugs og flúði út um glugga sem hann hefur aldrei svo mikið sem litið á áður. Ég blikkaði augunum, kyngdi og sagði "Ja-há" við sjálfan mig. Svo rölti ég út á svalir og byrjaði að blístra af innlifun. Eftir nokkurn tíma fékk ég lágvært svar, James sat sallarólegur á næstu svölum, virti fyrir sér heiminn og snyrti sig. Nákvæmlega það sama og ég geri þegar ég týnist.

Ég reyndi að lokka hann til mín með loforðum um gull og græna dverga, en hann sat sem fastast. Ég bölvaði því í hljóði að vera ekki demantaþjófur og eiga því ekki líflínu með akkeri til að skjóta yfir á svalirnar.

Nú var ég farinn að fylgjast áhyggjufullur með máfinum sem hnitaði hringi yfir blokkinni. Allir vita að páfagaukar eru eftirlætisfæða máfa, innfluttur sælkeramatur - nýlenduvara. Ég tók undir mig stökk og var á leiðinni út um dyrnar þegar síminn hringdi, það var Anna sem hafði líklega rumskað við blísturtónleikanna á svölunum. "Slapp James"? Það var áhyggjutónn í röddinni. Ég svaraði einhverju, skellti á og hljóp svo út um dyrnar, valt niður stigann, yfir í næsta stigagang og hóf að refsa af alefli dyrunum að íbúðinni við fuglasvalirnar meðan ég hrópaði "Í nafni almættisins opnið dyrnar, páfagaukur í neyð, fuglalíf Íslands í húfi, ríkisstarfsmaður að störfum!". Af einhverri ástæðu fékk ég ekki svar svo ég stökk niður í geymslu og sótti stiga.

Ég bar stigann út í garð með miklu brambolti, en þar var James farinn að rannsaka aðstæður og flytja sig á milli svala. Á meðan hljóp ég um fyrir neðan með stigann. Nágrannarnir voru á þessu stigi farnir að hópast út og fylgdust fullir áhuga með aðgerðum. Þeir héldu sig þó í öruggri fjarlægð - maður vill ekki koma of nálægt manni á náttfötum sem hleypur blístrandi í hringi, sveiflandi í kringum sig stiga.

Loks settist James að á svölum á annarri hæð. Ég stillti stiganum upp og klifraði upp á svalirnar. Það var feginn fugl sem kom fljúgandi og settist á fingurinn á mér. Svo vinkaði ég glaðlega til parsins sem var á fullu á sófanum inni í íbúðinni og klifraði niður. Síðasta setning er lygi.

Segið svo að ég lifi ekki spennandi lífi. Þótt páfagaukurinn minn virðist að vísu lifa meira spennandi lífi en ég.