Hugi Þórðarson

Gestur á heimilinu

Stundum er gott að vera þessi mjúki, mjúki maður sem ég er, en því fylgja líka ókostir. Ég á til dæmis erfitt með að gera nokkurri lifandi veru mein. Það á því miður líka við um skordýr sem þýðir að ég eyði jafnan stórum hluta minna sumra í æsta eltingarleiki við ýmis fljúgandi smákvikindi sem slysast inn í íbúðina. James ekki meðtalinn.

Yfirleitt fá þessi grey frelsi þegar ég er búinn að klófesta þau, en í fyrra þegar geitungastríðið stóð sem hæst byrjaði ég að taka stríðsfanga. Og fóðra þá. Og fylgjast með þeim.

Nú gæti einhver sagt: "Hugi, það er ekki heilbrigt að halda flugum föngnum og fóðra þær og fylgjast með þeim tímunum saman. Og það er ekki heldur heilbrigt að gefa þeim nöfn og bjóða þeim góða kvöldið þegar þú kemur heim úr vinnunni. Og það er náttúrulega alveg ga-ga að horfa í spegil, tala við sjálfan sig og kalla sig "Lord of the Flies"".

Þessu er ég auðvitað ósammála, þetta er allt mjög heilbrigt. Ég er með afbrigðum heilbrigður.

En já, meðfylgjandi er mynd af nýjasta húsgestinum. Hann kíkti í heimsókn í kvöld, heitir Jónatan Schopfenhauer Aðaldal (kallaður Nonni) og er þarna að gæða sér á dýrindis hlynsírópi. Það er alltaf gert vel við gesti á þessu heimili, sama hvaða stjórnmálaflokki eða dýrategund þeir tilheyra. Genfarsáttmálinn er virtur að fullu á Hagamelnum.

Og nú væri það sérdeilis fínt ef ég næði að sofna, takk. Bölvaða flugþreyta.