Hugi Þórðarson

Og sjá, svín flugu - í helvíti var frost

Það greip mig einhver óstjórnleg sjálfsstjórn um daginn og ég hef ákveðið að kaupa ekki flygilinn. Flygilinn sem ég þrái heitar en heimsfrið. Flygilinn sem einn hefur vakið hjá mér löngun til að fá mér bjarndýrsfeld og arin, svo ég geti gælt við hann og bónað af ástríðu í mjúkum eldbjarma á köldum vetrarkvöldum.

Þessi ákvörðun finnst mér sérstaklega merkileg í ljósi þess að ég var búinn að útvega peninga fyrir kaupunum og hef, á íslenskan mælikvarða, vel efni á þessu. Það eina sem ég þurfti að gera var að labba inn í hljóðfæraverslunina, benda á flygilinn og segja "Ég ætla að fá þennan. Sendið þið heim?".

En mér finnst ömurð að skulda peninga og vil ekki falla í íslensku gryfjuna, að taka lán á lán ofan þar til Björgúlfsfeðgar koma í heimsókn með hnúajárn og borvélar, brjóta á mér hnjáskeljarnar og stela úr mér seljanlegum líffærum. Ég kaupi flygil seinna og held mig þannig við fyrri fjárhagsáætlun sem gengur út á skuldleysi eða dauða, líklega dauða. Og svo glotti ég í kistunni í eigin jarðarför þegar presturinn segir í líkræðunni "Hann Hugi var með eindæmum fúll og leiðinlegur og börn óttuðust hann, en hann var skuldlaus - það má hann eiga".