Hugi Þórðarson

Pempíur þessir kanar

"Sir, Please put your pants back on".

Þessi setning skipar núna öruggt fyrsta sæti á listanum yfir setningar sem ég bjóst aldrei við að heyra frá karlmanni - hvað þá vopnuðum öryggisverði. En þetta fékk ég að heyra í skipandi tóni frá einum slíkum á alþjóðaflugvellinum í San Francisco.

Þannig vill til að á gallabuxunum mínum eru málmhnappar. Þeir valda vandræðum í þessum málmleitarhliðum flugvalla sem eru orðin svo næm að það liggur við að það þurfi að tappa af manni blóðinu vegna járninnihalds svo maður komist í gegn.

Þegar ég kom að málmleitarhliðinu í San Francisco vissi ég að þetta yrði vesen og ákvað af herramennsku að gera mitt besta til að flýta fyrir. Þannig að ég reif mig snarlega úr buxunum og skellti þeim á færibandið.

Það sló þögn á nærstadda. Öryggisvörðurinn rak upp stór augu og færði höndina nær skammbyssuhulstrinu. Hann renndi augunum hægt niður fæturna á mér (ég var heppinn að vera smekklega klæddur að neðan þennan daginn), horfði svo beint í augun á mér og sagði fyrrnefnda setningu með samanbitnar tennur, "Sir, Please put your pants back on".

Ég reyndi að skýra málið (rosa gaman að rökræða við öryggisvörð hérumbil ber að neðan að viðstöddum tugum áhorfenda) og á endanum hleypti hann mér í gegn. Enda sýndi stutt rannsókn með málmleitarsprota að hnapparnir á buxunum voru vissulega stórhættulegir.

Það er víst ekki vel séð þarna í Bandaríkjunum að menn fletti sig klæðum óumbeðnir. En ég er auðvitað bara á undan minni samtíð eins og alltaf, því ég er viss um að þessi þróun í flugöryggi á eftir að enda með því að við verðum að ferðast nakin.

Ef ég ætlaði annars að sprengja flugvél þá mundi ég nú bara gleypa einn eða tvo smokka fyllta með nitróglyseríni og laxera svo hressilega í flugvélinni. Eiga eldfimar hægðir, ef svo má segja.