Hugi Þórðarson

Ber

Ég fékk ánægjulegt símtal frá Daníel og Elínu í síðustu viku. Þau kváðust vera með rifsrunna sem svignuðu undan berjum og vantaði aðstoð við að losna við þau, enda garðurinn þá farinn að fyllast af Garðbæingum (Garðbæingar eru afar sólgnir í rifsber. Sérstaklega gaman að fylgjast með þeim á haustin þegar berin eru farin að gerjast, þá verða þeir oft mjög ölvaðir af berjaáti og ráfa röflandi um miðbæinn, gangandi á hurðir og glugga).

Ég stökk að sjálfsögðu af stað í berjatínslu. Ég elska ber og tíni alls ber. Stundum er ég meira að segja ber. Og Daníel og Elín fengu meira en þau sömdu um, því litla fjölskyldan á efri hæðinni kom með í tínsluna og við líktumst helst biblíulegum engisprettufaraldri þar sem við tíndum af ásetningi hvert einasta ber sem við sáum og skildum eftir okkur sviðna jörð. Eða jæja, kannski ekki, við skildum eftir nóg handa heimilisfólkinu í eina sultukrukku - eða sultubaðkar - magnið af berjum í þessum garði var óhugnanlegt.

Svona er ég, réttu mér litla fingur og ég tek öll rifsberin þín.

Heimilisfólkið bauð okkur nú samt upp á kaffi og kökur á eftir. Þau eru höfðingjar heim að sækja.

Og nú er komið að því að gera rifsberjahlaup á þessu heimili. Eða er einhver með betri hugmyndir um hvernig má nýta svona falleg ber? (sjá mynd)