Hugi Þórðarson

Tónlist

Orri heitir maður Smárason.  Hann er norðfirðingur eins og ég.  Hann er þó nokkuð yngri og þekki ég hann satt best að segja lítið.  Hins vegar er hann einn af örfáum bloggurum sem ég les alltaf reglulega.  Einfaldlega af því að hann er ótrúlega góður penni og þar sem mér sýnist við vera miklir skoðanabræður, þá er frábært að sjá hugsanir mínar settar fram með svo miklu skýrari og skemmtilegri hætti en ég gæti nokkurn tímann gert sjálfur.  (http://www.orrismara.blogspot.com/ fyrir þá sem vilja skoða með eigin augum)
 
Orri fjallar í bloggi sínu um að ást hanns á tónlist sé ekki sú sama og var.  Það varð mér hvatning til að fjalla út frá mínum sjónarhóli um þetta annars mjög sorglega vandamál sem ég hef einnig þurft að glíma við. 
 
Fyrstu 20 ár ævi minnar spilaði tónlist gífurlega stórt hlutverk.  6 mánaða byrjaði ég að spila á gítar með pabba mínum, 6 ára fór ég í tónskóla að læra á blokkflautu, 8-14 ára var ég í tónskóla, ýmist að læra á píanó og/eða saxófón.  Um 14-15 ára aldurinn byrjaði maður að stússast í hljómsveitum og má segja að á tímabili hafi maður hreinlega verið tónlistarmaður að atvinnu - enda sveitaballamarkaðurinn á austurlandi gjöful mið fyrir þá sem aldrei voru nógu miklir karlmenn til að stunda sjómennsku.  Hefði ég ekki verið svona líkamlega illa skapaður (*) er aldrei að vita að maður hefði jafnvel lagt tónlistina fyrir sig sem framtíðarstarf. 
( * :  Með "líkamlega illa skapaður" er ég ekki aðeins að vitna til þess að ég sé feitur - enda margir tónlistarmenn í þyngri kanntinum - heldur það að hugurinn hefur ávalt verið sterkari, snarpari og fjölhæfari en líkaminn.  Þetta hefur í  gegnum ævina háð mér á ýmsum sviðum öðrum en í tónlistinni, og þá má helst nefna til sögunnar knattspyrnu)
  
Eg var sem sagt mikið í tónlist og hlustaði gífurlega mikið á tónlist.  Eg byrjaði seint að drekka (seinþroska) og hafði ég það sem reglu að alltaf þegar félagar mínir duttu í það, þá fór ég og keypti mér geisladisk.  Þar sem ég hef alltaf verið sérlega naskur á að finna mér góða vini, þá eignaðist ég mjög stórt geisladiskasafn.  Hver einasti geisladiskur var spilaður í tætlur.  Þegar ég var í bæjarvinnunni þá dreif maður sig heim í hádeginu, skóflaði í sig matnum og lagðist inn í rúm og hlustaði á Misplaced Childhood diskinn með Marillion.  Ekki bara af því að það var besti diskurinn í heimi, heldur passaði hann svo akkurat upp á tímann að gera.  Hann var aðeins 41 mínútur af snilld.  Ekki kom til greina að setja disk á fóninn sem var 50 mínútur, en það jafnaðist við guðlast að slökkva á disk.  A þessum tíma var algengt að manni þótti heilu diskarnir meistarverk - ein snildarleg heild sem alls ekki mátti rjúfa.  Ef diskur fór af stað, þá skyldi maður hlusta út í gegn.  Ef svo illa stóð á að ómögulegt var að klára diskinn, þá ýtti ég ekki á stopp.  Lét duga að lækka nógu mikið niður til að mamma myndi ekki fara inn í herbergi og slökkva.  Virðing.  Astarsamband mitt við tónlist var heitt og sem ungur og óreyndur maður var ég sannfærður um að þetta væri eilíf ást. 
 
Eg lifði árin 20.  Og svo eitthvað lengur.  Attaði mig svo einn daginn á því að ég var alveg hættur að setja diska "á fóninn".  Kunni enga skýringu.  Var svo að fylla út yfirlit um áhugamál á einhverri vefsíðu (nei - ekki einkamal.is), setti "x" við tónlist, en rann þá upp fyrir mér að líklega væri ég að gera það af gömlum vana!  Eg hafði í raun engan sérstakan áhuga á tónlist.  Það  Gekk svo langt að ég náði að telja mér trú um að ég hefði einfaldlega mist hæfileikan til að virkilega "fíla" tónlist.  Hef reynt að kenna ýmsu um... að tónlistin í dag sé bara orðin svo léleg... að ánægjan af því að hlusta hafi farið með því að vera ekkert að spila... að Fish hafi hætt að syngja með Marillion... 
 
Núna - árið 2006 - eftir ca. 5 ára veru í tónlistarsnauðum heimi - held ég að ég sé búinn að átta mig á þessu.  Tónlist kveikti hjá manni tilfinningar.  Sem unglingur var maður stöðugt að upplifa eitthvað nýtt í tónlist.  Það kallaði á tilfinningar.  Trommubeat - sóló - rödd - hljómagangur...  allt var þetta nýtt og nýlegt í eigin upplifun.  En því miður er tónlist sambærileg við tívolítæki.  Maður þarf alltaf stærra og meira ógnvekjandi tívolítæki til að viðhalda spennunni.  Smá saman dofnar spennan af því að vera alltaf í sama tækinu.  Sama gerist í tónlistinni... nema bara að gallinn er að tónlist á erfitt með að "stækka" eins og tívolítækið. 
 
Eg hafði því sætt mig við að ástarsamband mitt við tónlist var lokið.  En þá kom Sigur Rós.  A tónleikum með Sigur Rós gerðist allt í einu eitthvað... það kviknaði tilfinning.  Vissulega ekki eins sterk og sú sem Marillion, Genesis, Peter Gabriel og Jethro Tull skilaði manni á sínum tíma, en engu að síður nóg til að endurvekja trú á því að ég og tónlist áttum enn séns... það var eitthvað þarna innra með mér þess virði að berjast fyrir.
 
I dag lifi ég í góðri sátt við tónlist... engin heit ást, en við eigum hvort annað að.  Maður er meðvitaður um að erfitt er að kynda í gömlum glóðum, en þó er það hægt með því að hlusta með nýjum hætti.  T.d. var það alveg nýtt hjá mér að taka eftir textum... að tengja saman texta og lag hafði maður lítið gert, en þannig má fá beint í æð þær tilfinningar sem tónlistin skilaði ein og sér hér áður fyrr.
 
Sömuleiðis þarf að gera sér grein fyrir að ef maður ætlar sér að endurvekja ástarsambandið við tónlist, þá þarf maður að vera meðvitaður um það.  Það er ekki bara hægt að ætlast til þess af tónlist að hún færi manni tilfinningar...  maður þarf eitthvað að leggja eitthvað að mörkum sjálfur, t.d. með því að leyfa tónlist að vera þáttakandi þegar aðrir hlutir hafa jákvæð tilfinningaleg áhrif.  Þannig varðveitast þær tilfiningar í tónlistinni og hægt verður að kalla þær fram aftur með því að "setja plötuna á fóninn".
 
...það sem gerir þessar pælingar skemmtilegar er að í ljósi þess að tónlist snýst um tilfinningar þá er ómögulegt að segja hvernig áhugi og hlustun á tónlist þróast.  Með sama hætti og ómögulegt er að segja til um hvernig tilfinningar muni þróast.