Hugi Þórðarson

Úps...

Stend núna við nemendatölvu í FÍH og bíð eftir að verða kallaður inn í stöðupróf í píanóleik.

Ég mætti tíu mínútum á undan áætlun en gekk samt beint inn í prófsalinn. Ég er ekki vanur að láta bíða eftir mér. Í salnum sat ungur maður við trommusett, ég gerði auðvitað ráð fyrir að þetta væri undirleikarinn minn svo ég tók í höndina á honum, kynnti mig og settist við píanóið. Svo byrjaði ég að spila random djasslag til upphitunar og trymbillinn byrjaði að spila með mér. Eftir u.þ.b. eina mínútu kom Sigurður Flosason saxofóngoði, gangandi inn í salinn og var hissa - jafnvel undarlegur - á svipinn. Ég brosti, bauð góðan daginn og spurði hvort það hefði ekki verið í lagi að við byrjuðum. Og hann svaraði "Eh, jújú, fínt. En við megum kannski klára að prófa þennan trommuleikara áður en þú kemur í þitt próf?"

Listinn yfir það sem ég hef gert í dag lítur því svona út:

  • Borðaði morgunmat.
  • Fór í vinnuna.
  • Ruddist inn í trommupróf og byrjaði að spila á píanó.
  • Bloggaði um það.