Hugi Þórðarson

Hálfnað er nám þá hafið er

Ef einhver spyrði mig núna "Hugi, hvað gerðir þú í dag?" þá mundi ég svara "Ég tók fjögur stig í djasspíanóleik, hvað gerðir þú?".

Ég mætti í fyrsta píanótímann í morgun. Það var ekki leiðinlegt að byrja blautan mánudagsmorguninn á að spila blús með Agnari Má, kennaranum mínum, og mánudagsmorgnar eru hér með í uppáhaldi hjá mér. Biðst afsökunar á öllum slæmu hlutunum sem ég hef sagt um þá í gegnum árin og vona að ég verði ekki laminn af mánudagsmorgni á næstunni.

Þegar við höfðum rætt málin og spilað í smá tíma tilkynnti Agnar mér að ég ætti ekki heima í grunnnámi, heldur ætti ég að fara beint í framhaldsnám. Þar með fékk ég skyndilega fjögur stig af þeim átta sem eru í djasspíanónáminu og var því hálfnaður með námið eftir tæpar 20 mínútur í skólanum.

Mér reiknast svo til að ef ég næ að halda þessum námshraða verð ég útskrifaður á morgun, á miðvikudaginn gef ég út fyrstu breiðskífuna mína, á fimmtudaginn verð ég orðinn ónýtur heróínfíkill og búinn að rústa nokkrum hótelherbergjum og á föstudaginn fer ég svo í meðferð og held "comeback"-tónleika. Svo dey ég af slysförum á laugardaginn og verð harmdauði hjörðum af ungum meyjum sem allar þráðu að eignast börnin mín (og fá sumar þá ósk uppfyllta í júní á næsta ári).

Minningartónleikar um mig og stuttan en viðburðaríkan feril minn verða haldnir í Höllinni næsta sunnudag. Mæli með að þið tryggið ykkur miða, mér skilst að þar muni koma fram allt besta fólkið sem ég á eftir að spila með.