Hugi Þórðarson

Varsjá

Á laugardagskvöld verður keppnin Miss World haldin í Varsjá.
Á morgun fer ég til Varsjár.
Tilviljun?
Já.

Mig langar lítið á þessa keppni, ekkert þar að finna nema fallegt kvenfólk. Veit samt að ég er að taka heilmikla áhættu með því að vera úti á þessum tíma. Það er nefnilega alþekkt staðreynd að þegar svona torfa af kvendýrum safnast saman og fer að svitna fyrir framan sviðsljósin leggur frá þeim lífshættulegt estrógen/feromón-ilmský. Ský sem gæti lokkað mig á staðinn og til glötunar ef vindátt verður hagstæð.

En ég er búinn að biðja vinnufélagana að hafa auga með mér. Þeir ætla að binda mig fastan ef ég fer að hegða mér grunsamlega meðan keppnin er í gangi, t.d. að horfa á tunglið og ýlfra. Eða rífa mig úr að ofan og flengja einhvern kvenmann. Eða ef hreint testósteron byrjar að frussast út um ennisholurnar á mér.

Það er bölvuð erfiðisvinna að vera karlmaður.