Hugi Þórðarson

Grímuball

Ég fór á Sólon á laugardaginn í partý aldarinnar - eða nei - þúsaldarinnar! Anna kann að halda partý, ekki oft sem maður getur farið í eitt hóf og dansað þar við Engil, Satan, Sigga Sæta, Morrissey, James Bond, Frelsisstyttuna og fleira fólk og listmuni.

Kvöldið var auðvitað magnað frá A-Ö en það sem stóð tvímælalaust upp úr var að Ken, næsti einráður alheimsins, skyldi óvænt mæta á svæðið í fylgd heillar herdeildar af lífvörðum og hringa sig fastan við hana Önnu. Og bíllinn sem hann mætti á, maður minn, svona tól er nóg til að snúa mér frá blautum dagdraumum um Land Roverinn.

Ég var annars sjálfum mér samkvæmur og fór rólega í að finna mér búning. Það var því alveg sérstök hamingja þegar ég rakst á Hörpu og Hugskot á rölti mínu um ótölulegan fjölda grímubúningaverslana bæjarins á laugardaginn, því í Rauða kross-búðinni fann ég þennan líka gullfallega kjól sem smellpassaði á mig og stúlkurnar voru ekki lengi að finna skó og hatt í stíl. Útkoman var... Skelfileg.

Ég var að vísu truflaður með símtali frá Gallup-stúlku í fatabúðinni, en bað hana að hringja aftur þar sem ég væri upptekinn við að máta kjól. Hún hringdi ekki aftur.