Hugi Þórðarson

Afmældur

Já. Ég er á lífi. Ennþá. Jújú. Og orðinn árinu eldri en síðast.

9. nóvember. Merkileg dagsetning. Og ekki bara vegna þess að hún stuðlar, heldur einnig frá sjónarhóli tuttugustualdar söguáhugamannsins. Dauði þýska keisaraveldisins. Stofnun Weimar-lýðveldisins. Bjórhallaruppreisn Hitlers litla. Krystalsnóttin. Tilræðið við Hitler. Fall Berlínarmúrsins. Fæðing mín.

Já, ég átti þennan líka frábæra afmælisdag á fimmtudaginn. Vaknaði venju fremur snemma, um sjöleytið, en samt voru þá þegar komin í fjarskiptaáhaldið mitt tvö smáskilaboð (eða "SMS" eins og unga fólkið segir) með óskum um gleðilegan afmælisdag. Ég á svo fína vini að ég skil bara ekkert í því. Ég kem fram við þetta fólk eins og annan óþverra sem kemur úr eyrunum og nefinu á mér en samt skal það halda áfram að umgangast mig. Masókistar - upp til hópa.

Jæja, ég brunaði (of seint) í vinnuna og fyrsta manneskjan sem ég mætti óskaði mér til hamingju með daginn. Sem mér þótti undarlegt þar sem ég gæti svarið að ég hafði örugglega aldrei séð hana áður. Og svo streymdu hamingjuóskirnar að frá vinnufélögunum. Ég varð tortryggnari með hverri mínútunni, hvað vildu þau mér eiginlega? Held að þau hafi ætlað að hópmisnota mig í lok dags, klikkuðu bara á því að ég hætti snemma til að fara í skólann. Því miður, held ég hafi misst af góðri hópmisnotkun.

En já, ég var löngu búinn að ákveða hvernig ég ætlaði að eyða þessum afmælisdegi og planið gekk vonum framar. Afslöppun. Ég kom heim úr skólanum kl. 19, skipti í náttfötin, refsaði píanóinu í góðan klukkutíma og plantaði mér svo í eldhúsið þar sem ég eldaði oní mig lambaskanka og bakaði eins og vindurinn langt fram eftir kvöldi. Varð bara fyrir einni (ánægjulegri) truflun þegar vinafólk mitt kíkti í heimsókn seint um kvöldið, en þau átu auðvitað allt sem ég hafði bakað fram að því, restina af skönkunum og flest annað lauslegt í íbúðinni. Veit ekki til hvers ég er að baka, þetta er alltaf allt saman bara étið.

En já, afmæli eru fín.

Og varðandi heljarþögn síðustu vikna á þessum annars ágæta vef? Henni er lokið.

Þetta er mynd. Til framtíðarheimildar fyrir sjálfan mig um hvernig ég lít út í dag, nú þegar ég hef loks náð þessum aldri (stúlkan sem er við hliðina á mér er viljandi klippt út, skyggir annars á mig).