Hugi Þórðarson

Losti

Það var svo sem auðvitað. Eftir umræðurnar sem spunnust í kjölfar síðust færslu greip mig þessi líka gríðarlegi tækjalosti svo ég brunaði á föstudaginn upp í Pfaff-hús og fjárfesti í Sennheiser-hljóðnema, bómu og tæki til hjálpa tölvunni að taka við því sem neminn nemur (var auðvitað eftir að hafa fengið leyfi hjá betri helmingnum - það er sko vinstri helmingurinn á mér). Og ég verð að játa að ég kann þér, Elías, hinar frábærustu þakkir fyrir góðráðin, því þetta eru líklega bestu kaup sem ég hef gert. A.m. í þessari viku. Kostaði nokkra peninga en það er ómetanlegt að heyra þvæluna sem maður er að spila - og það varð mikil framför í hljóðfæraleik undirritaðs í kjölfarið.

Og auðvitað skulda ég hljóðdæmi úr nýju tækjunum. Cheek to cheek, ein af fyrstu upptökunum sem ég gerði. Eða öllu heldur tvær upptökur sem ég lagði ofan á hvora aðra. Og eins og sannur, latur djassari nennti ég ekki að taka upp aftur til að laga vitleysur eða klippa út taktmælinn. Samt óneitanlega oggulítil breyting í hljómgæðum frá fyrri upptöku.

Allar góðar ráðleggingar fyrir upptöku vel þegnar. Mér skilst að til að ná bestu hljóði úr píanói verði að nota tvo hljóðnema en sem stendur er ég bara með einn og hann er núna yfir G- strengnum fyrir neðan mið-C.