Hugi Þórðarson

Hliðarverkefnið

Þar sem ég hef ekkert að gera, sit venjulega allan daginn alla daga og bora í nefið eða naflann á mér, er ég byrjaður á smá aukaverkefni - við Logi erum að smíða eldamennsku- og eldhússkipulagsvef. Við smellum vel saman í þessu verki þar sem ég er áhugamaður um eldamennsku og hann er áhugamaður um skipulag. Ég er búinn að vera að forrita fyrstu útgáfu af vefnum og hún er núna komin upp. Afar hrá, og snýst enn sem komið er aðeins um uppskriftasafnið (sem verður minnsti hluti vefsins) en virkar nokkuð rétt. Ég ætla að vera duglegur að henda uppskriftum þarna inn núna og athugasemdir og hugmyndir eru vel þegnar.

Fróðleiksmoli dagsins: Vissir þú að forritun er orkufrek vinna? Jafnvel orkufrekari en að grafa húsgrunna með berum höndum? Ég sat við eldhúsborðið frá kl. 10 í gærmorgun til miðnættis í gær og forritaði, á þessum tíma hurfu tveir lítrar af kaffi, þrír pakkar af grahamskexi, tvær krukkur af bláberjasultu og tvö stykki af gráðaosti.