Hugi Þórðarson

Uðvitan

Daginn. Ég biðst afsökunar á sambandsleysinu sem hefur verið hérna undanfarinn sólarhring. Það kom til vegna tilraunastarfsemi minnar með náttúruvæna orkugjafa, nánar tiltekið var ég að reyna að keyra serverinn minn á lífrænum úrgangi. Ég keypti nefnilega íbúðina á neðri hæðinni í síðasta mánuði og breytti henni í rotþró.

Það tók mig ekki nema tvær vikur að beina öllu skólpi blokkarinnar í nýju íbúðina mína og setja upp búnað til að framleiða lífræna olíu úr gumsinu, sem ég nota svo til að knýja díseltúrbínur í annarri íbúð við hliðina á - sem ég keypti líka. Og þetta virkaði bara afskaplega vel fyrstu vikuna. Að vísu fékk ég nokkrar vingjarnlegar kvartanir frá nágrönnum þegar brúnn massi byrjaði að leka meðfram hurðinni á rot-íbúðinni og fram á gang, en því var fljótreddað með góðu silikoni. En svo var það í gær að internettengingin mín stíflaðist þegar einhver vitleysingur sturtaði niður bleyju. Og þess vegna virkaði ekki síðan mín.

Þetta heitir að gera langa sögu stutta.

Hvað um það, í öðrum fréttum er ég búinn að vera með afbrigðum utan við mig undanfarið. Það að ég skuli enn vera á lífi eftir þessa törn skilst mér að megi flokka sem kraftaverk af þriðju gráðu skv. kaþólska kraftaverkastaðlinum ISO 4576. Ég virðist samt fara hratt batnandi, því samkvæmt þjóðarpúlsi Gallup telja 78,3% kvenna undirt tvítugu á landsbyggðinni mig vera meira innan við mig í dag en í gær.

Nokkur dæmi úr daglega lífinu síðustu 24. klukkutíma:

Fór í gærkvöldi á Shellstöðina við Hagamel og fékk mér pylsu. Ekki í frásögur færandi, nema á leiðinni aftur út í bíl henti ég bíllyklunum í ruslið. Ég þurfti að fara aftur inn á stöðina og biðja fallega um að ruslatunnan yrði opnuð svo ég kæmist heim. Undirtektir starfsfólks og viðskiptavina voru... Glaðlegar.

Vaknaði í morgun. Skreið svefndrukkinn í sturtu, klæddi mig með erfiðismunum, fékk mér skyr (náði þó að gera þetta í réttri röð) og keyrði svo í vinnuna. Þegar ég var hálfnaður niðureftir fattaði ég að ég hafði gleymt tölvunni heima svo ég sneri við. Þegar ég kom aftur heim var hurðin á íbúðinni opin, það var kveikt á kerti á eldhúsborðinu (peran í eldhúsljósinu fór í gær) og tölvan mín lá á gólfinu við dyrnar.

Svo fór ég aftur niður í vinnu. Þar hóf ég vinnudaginn á að kalla Loga, vin minn og vinnufélaga til sjö ára, "Fjalar". Kannski eðlilegt eftir ekki lengri vinskap?

Um hádegið hringdi svo síminn hjá mér. Ég brást við með því að fálma í áttina að honum og svara hiklaust í banana sem ég hafði lagt á skrifborðið tveimur mínútum fyrr.

Svona er síðasti mánuður búinn að vera. Ég þarf að komast í frí áður en ég fer mér að voða.