Hugi Þórðarson

Játning

Stundum öfunda ég sjálfan mig af mínu einfalda lífi. Því það er einfalt þótt það sé önnum kafið, svona að öllu jöfnu.

Það er sunnudagur. Ég var vakinn klukkan tíu. Fór í sund með vinkonu minni. Spilaði á píanóið til hádegis. Kíkti á kaffihús og kjaftaði við Hildi systur í klukkutíma. Fór svo heim og lagðist í letistólinn með tebolla og bók. Fór og söng nokkur lög til styrktar samtökum flogaveikra. Lék meira á píanóið. Rölti út í Melabúð á náttfötunum og keypti lambaskanka. Setti djass á fóninn og eyddi klukkutíma í að elda fyrir sjálfan mig. Lagðist aftur í letistólinn og fór að læra. Ligg núna og les góða bók meðan ég hlusta á tónlist frá því fyrir 15. öld til prófs í tónlistarsögu.

Ég skil ekki stressað fólk. Lífið er svo einfalt. Og gott.