Hugi Þórðarson

Nema, nam, naumt

Jæja, tónlistarprófum er lokið í ár og ég er núna tveimur sextánduhlutum af gráðu nær því að útskrifast sem djasspíanisti. Og fékk einkunn sem gladdi, merkilegt nokk. Átti ekki von á því.

Helsta klikkið í aðalprófinu (sem kallast stigspróf, svona til fróðleiks fyrir amatörana) var að ég byrjaði fingraæfingu eftir fornaldarvin minn, Carl Czerny, á tæplega hundraðföldum hraða. Tilfinning ekki ósvipuð því að láta skjóta sér úr teygjubyssu eitthvað út í loftið - villt ferðalag sem vonlaust er að vita hvernig endar. Ég hélt að hausinn á kennaranum mínum mundi springa þegar ég var hálfnaður í gegnum fingraflækjuna - það var á tímabili hægt að sjá í bert hold í gegnum svitaholurnar á enninu á honum - en þetta fór vel þótt það ryki úr fingrunum á mér þegar ég var búinn.

Naut svo ótrúlegrar lukku í verklegu prófi í hljómfræði í gær. Mætti í prófið, geispandi, vitandi að þetta yrði ekkert mál. En svo komst ég að því fyrir tilviljun, á kjaftatörn við stelpu í sama fagi, að ég átti að kunna eitthvað bölvað lag utanað fyrir prófið og gera fullt af ólýsanlegum, hræðilegum hlutum við það sem ég hafði aldrei gert áður, saklaust ungmenni sem ég er.

Svo það far fátt annað að gera en að fá lánað hjá henni blað með laginu, leggja hljómana á minnið og bíða svo spenntur þess sem koma skyldi. Biðtíminn leið reyndar hratt þar sem ég rakst á stelpu með samskonar heilaskemmdir og ég, og við eyddum talsverðum tíma í að rökræða hvort kennarinn héldi að hann væri banani eða ekki. Sem var ágætt (það var mjög lítið súrefni þarna inni).

Og viti menn. Nía fyrir prófið. Sem sannar bara það sem Lalli Johns segir alltaf, maður á aldrei að læra fyrir próf.

Og nú ætla ég að baka pönnukökur.