Hugi Þórðarson

Lady in Satin

Ég ætlaði að kíkja á tónleika í kvöld en dottaði út frá bók í latastráknum og vaknaði ekki fyrr en fimm mínútum áður en tónleikarnir byrjuðu. Og að sjálfsögðu nennti ég þá ekki út, átti eftir að setja á mig andlitið og allt.

En kvöldinu var samt ekki sóað. Ég setti á fóninn plötu sem ég keypti í dag - "Lady in Satin" með Billie Holiday, plötu sem hún tók upp með Ray Ellis rúmu ári áður en hún lést. Og hvílík plata. Fullkomlega heillandi. Hljómþýða röddin hennar Billie er horfin og er orðin brostin, rám og hrá. Það er eins og allt hafi verið fjarlægt úr henni nema tilfinningin. Og þegar maður veit hverskonar ævi hún átti getur maður ekki annað en klökknað við að hlusta á hana (hún varð ekki nema rúmlega fertug). Enda segir sagan að Billie sjálf hafi álitið þetta sína bestu plötu og hafi grátið við að hlusta á upptökurnar.

Hljóðdæmi: I'm a fool to want you (ekki fyrir viðkvæma).

Og til samanburðar er "gamla Billie": Come Rain or Come Shine

They don't make 'em like this any more.