Hugi Þórðarson

Heppinn

Kom við á bensínstöð um helgina og fékk mér pylsu. Hljómar einfalt, ekki satt?

En þegar ég ætlaði að fá mér tómatsósu vandaðist málið. Lenti á einni af þessum heimakæru tómatsósum. Sósan var bara alls ekki á því að yfirgefa flöskuna svo ég hnykkti flöskunni duglega til að losa innihaldið. Þessi aðgerð heppnaðist ekki betur en svo að megnið af innihaldinu yfirgaf flöskuna með háværu, heldur óvirðulegu hljóði og plantaði sér í einfaldri línu þvert yfir andlit og föt virðulegs, miðaldra manns sem stóð grunlaus á móti mér og borðaði pylsu.

Karlgreyið þurrkaði rauða slettu af nefinu á sér og leit á mig með sársaukasvip. Við horfðumst í augu og hvorugur okkar sagði neitt, það var algjör þögn í sjoppunni og spennan var áþreifanleg. Svo ræskti ég mig og spurði varlega hvort þessi föt hefðu nokkuð verið dýrmætir erfðagripir. Hann hló. Ég heppinn, sprautaði yfir mann með húmor.

Ég splæsti á hann pylsu.