Hugi Þórðarson

Ekki lesa þessa bloggfærslu

Ég hef aldrei verið sá sem býr yfir óteljandi sögum og frásögnum sem bíða eftir því að fá að springa út úr raddböndunum (eða fingurgómunum) á mér.  Einnig er ég tiltölulega óhæfur um að taka hversdagslega atburði og gera þá áhugaverða - þó ekki væri nema bara örlítið spaugilega.  Þar að auki skynja ég illa hvað öðrum þykir áhugavert og geri mér ekki grein fyrir því að ég búi yfir góðri sögu fyrr en ég heyri einhvern annan með sömu upplifun gera úr henni sögu sem nærstaddir drekka í sig.  Ég býst við að þetta sé ástæðan fyrir því hvað ég blogga lítið.  Mér finnst ég einfaldlega ekki hafa frá neinu að segja. 
 
Ég held að ég hafi alltaf verið metnaðarfullur.  Eða kannski ekki alltaf...  ég get vel farið í gegnum tímabil algjörs metnaðarleysis.  Yfirleitt hefur metnaður þó verið einn helsti drifkrafturinn í því sem ég geri.  Þetta hefur skilað mér því að ég forðast að ráðstafa tíma mínum á sviðum þar sem mig skortir hæfni til að vera framúrskarandi.  Þetta er kostur og galli.  Einn kostur eru að maður lærir að þekkja sjálfan sig mjög vel og lærir að lifa með því að á flestum sviðum eru aðrir í nánasta umhverfi sem eru hæfari á einhverjum sviðum.  Annar kostur er að tímanum er frekar varið þar sem maður hefur tækifæri til þess að vera framúrskarandi og maður eykur þannig líkurnar á því að ná því takmarki.  Gallinn er að það er því miður mjög fá svið þar sem maður getur verið framúrskarandi, sem gefur manni talsverðan tíma til ráðstöfunar - sem maður kann þá ekki að nýta í neitt uppbyggilegra en að glápa á sjónvarp.  Nokkrir góðir vinir mínir eru framúrskarandi bloggarar.  Frásagnir Jóns Knúts af (stundum löngu) liðnum atburðum eru svo frábærar að þrátt fyrir að maður standi hann ekki af ósannsögli, þá eru sögurnar miklu betri en sá raunveruleiki sem maður man eftir.  Hugi er svo einkar lunkinn við að smíða farsa úr daglegum atburðum sem fara fram hjá flestum.  Ég efast hins vegar talsvert  um sannsögli Huga í bloggi sínu, en það gerir bloggið ekkert síðra.  Skv. framangreindu er því ljóst að tíma mínum er ekki vel varið í að blogga.  Ég býst við að þetta sé ástæðan fyrir því hvað ég blogga lítið.  Ég er einfaldlega ekkert sérstaklega góður í því.
 
Það er ótrúlegt hvað það virðist búa mikill "performer" í okkur íslendingum.  Við tökum þátt í Idol og X-factor í tonnatali, við hringjum inn í útvarpsþætti til að tjá okkur um málefni líðandi stundar, við tökum því sem upphefð að birtast í Séð og Heyrt og ef við erum ekki í aðstöðu til eða líður ekki vel með að vera áberandi, þá skrifum við bækur, ljóð, - nú - eða blogg.  Nú er það kannski ekki alveg þannig að við séum öll stöðugt að trana okkur fram með einhverjum hætti, en mjög oft er framboð meira en eftirspurn.  Með aukinni reynslu og þroska hefur maður áttað sig á því að í gegnum tímana hefur verið heldur mikið framboð af Einari.  Það skrýtna er að eftir því sem ég verð ánægðari með sjálfann mig, þá sé ég minni ástæðu til að tjá mig um það.  Finnst mér því nánast orðið erfitt að fjalla um sjálfan mig og líf mitt nema ég ritskoði það sem monnt eða sjálfsánægju og því betra að eiga það bara fyrir sjálfan sig.  Ég býst við að þetta sé ástæðan fyrir því hvað ég blogga lítið.  Ég er einfaldlega að reyna að tempra framboð af sjálfum mér og forðast að halda við því mannorði að vera óþolandi, sjálfsupphefjandi monntrass.
 
Ég get verið ótrúlega latur og er frekar slapur í stavsedningu.  Ég býst við að það sé ástæðan fyrir því hvað ég blogga lítið.
 
ÞÚ getur EKKI kvartað yfir því við mig að hafa sóað s.l. 85 sek í lífi þínu í að lesa þetta blogg.  Ég varaði þig við strax í titlinum.  Ekki nóg með það að bloggið var í heild leiðinlegt, upplýsingasnautt og óþarflega langt, þá er það  þar að auki eintóm markleysa.  Fáum dettur í hug að nota bloggfærslu til að sýna fram á ástæður fyrir því að blogga ekki.  Og enda svo færsluna á því að lofa því að blogga aftur fljótlega.
 
 
 . . . . . s o r r y