Hugi Þórðarson

Vitar feðranna

Eins og lög gera ráð fyrir þá datt ég í lestur yfir jólin. Ekki illa þó, skrámaðist aðeins á andliti og hruflaði annað hnéð en slapp annars vel.

En já, skemmtilegast fannst mér að detta í bók með þjóðsögum úr Mjóafirði, enda móðurættin mjófirsk - vitaverðir að Dalatanga í einhverjar kynslóðir. Ég fann nokkrar góðar sögur af fjölskyldunni og sannfærðist eftir eina þeirra um að þær væru allar heilagur sannleikur. Tilvitnun:

"Sveinn sagði að það væri segin saga að ef eitthvað þarfnaðist aðgæslu í vitanum meðan þeir svæfu, að Helgi afi, þá löngu látinn, ýtti við niðjum sínum með afgerandi hætti".

Téður Helgi er langalangafi minn. Og hvernig veit ég að þetta er satt? Jú, ég bara get ekki ímyndað mér neitt meira í stíl við mína góðu móðurætt en að teygja sig út fyrir gröf og dauða til að úthluta afkomendunum verkefni.

Mér líkaði strax vel við þennan forföður minn þegar ég las þetta og ætla að fylgja hans fordæmi þegar ég dey. Vekja barnabörnin um miðjar nætur með athugasemdum eins og "Búúúú, ertu búinn að borga rafmagnsreikninginn?" (hristir keðjurnar) "...og settirðu þvottinn í þurrkarann?" (ælir útfrymi yfir rúmið)

Ég verð semsagt svona óþolandi leiðinlegur illa lyktandi dauður afi. Það verður örugglega vinsælt.