Hugi Þórðarson

Djass

Varúð: Í þessari færslu er talað um "hljóma". Rated PG-5 (a.m.k. 5 ára tónlistarnám)

"Hvar er Hugi" spurði einhver í tjáskiptunum. Hér er svarið. Í löngu, löngu, löngu máli. M.ö.o. ekki stuttu máli. Það sem ég er að reyna að segja, er að textinn sem fylgir hér á eftir er alveg ofsalega langur. Varúð! Ekki lesa nema þú hafir gaman af löngum texta og málalengingum, en ég hef einmitt mjög gaman af málalengingum. Enda voru málalengingar fundnar upp á fjórtándu öld af hollenska munknum Jean-Baptiste de Malalingingher sem þagði í fimmtíu ár áður en hann fór í stjórnmál. Ahh, hvar værum við án málalenginga. En já, sagan, einmitt...

Algengasta spurningin sem ég fæ þessa dagana er "hvernig er í skólanum". Fyrstu viðbrögðin eru auðvitað að finnast ég vera fimm ára gamall, svona gamaldags "hvernig var í skólanum í dag vinur"-stemning en svo man ég að ég er orðinn fullvaxta, jafnvel kynþroska karlmaður og reyni að svara. En svarið kemur tilfinningunni aldrei almennilega á framfæri.

Þegar ég var ungur langaði mig í nám en hafði ekki grænan grun um hvað mig langaði að læra. Sagnfræði. Mannfræði. Stjórnmálafræði. Hagfræði. Efnafræði. Eðlisfræði. Stærðfræði... Ég hafði botnlausan áhuga á þessu öllu (nema boddí-skrúfum, ég hef engan áhuga á boddí-skrúfum), hvort sem það heitir raun- eða félags-eitthvað sem var skelfilegt hlutskipti. Svo uppúr tvítugu lagðist ég í rúmið með valkvíða í nokkra mánuði og stofnaði svo bara fyrirtæki. En djassinn var auðvitað alltaf málið.

Djasspíanóleikurinn sameinar vinstra og hægra heilahvel með eindæmum vel. Fyrst þarf að beita rökhugsuninni til að komast yfir lærdóminn - maður þarf að nota fúlustu stærðfræði til að vefja hausnum utan um hljómaskipti og skala - en með æfingu færist lærdómurinn svo úr strikamerkta helmingi heilans yfir í þann skapandi og verður náttúrulegur hluti af tónlistarorðaforðanum hjá manni.

Einfalt dæmi: Einn minna uppáhalds djass-standarda, Stella by Starlight, endar á þessum ágæta hljómagangi:

Em7b5 - A7 - Dm7b5 - G7 - Cm7b5 - F7 - Bbmaj7

Semsagt (fyrir þá sem lesa svona algebru): Óskapleg klisja. En leikum okkur aðeins með þetta. Nú vill svo skemmtilega til að major-sjöundarhljómar eru náskyldir nágranna sínum, hálfminnkaða sjöundarhljómnum hálftóni ofar - alveg gomma af sameiginlegum tónum sem hægt er að leika sér með. Og ef við nýtum okkur þetta verður skyndilega til ólíkt meira spennandi hljómagangur:

Ebmaj7 - Em7b5 - A7 - Dbmaj7 - Dm7b5 - G7 - Bmaj7 - Cm7b5 - F7 - Bbmaj7

Massar meira að segja við laglínuna. Snilld! En hvernig væri nú að nota tritone-substitution á þessa sjöundarhljóma þarna. Og gefa svo þeim sjöundarhljómum sem fara fyrir mollhljómum smá altered-hljóm:

Ebmaj7 - Em7b5 - Eb7 - A7alt - Dbmaj7 - Dm7b5 - Db7 - G7alt - Bmaj7 - Cm7b5 - B7 - F7alt - Bbmaj7

Nú erum við farin að teygja okkur aðeins út í bláinn, en úr því við erum byrjuð, setjum þá líka inn sjöundarhljóma hálftóni ofan við þessa major-sjöundarhljóma þarna:

E7 - Ebmaj7 - Em7b5 - Eb7 - A7alt - D7 - Dbmaj7 - Dm7b5 - Db7 - G7alt - C7 - Bmaj7 - Cm7b5 - B7 - F7alt - B7 - Bbmaj7

Og ef við viljum missa okkur alveg, þá er náttúrulega algjörlega nauðsynlegt að setja II-V með sjöundarhljómunum, svo þeir verði ekki einmana:

Bm7 - E7 - Ebmaj7 - Em7b5 - Eb7 - A7alt - Am7 - D7 - Dbmaj7 - Dm7b5 - Db7 - G7alt - Gm7 - C7 - Bmaj7 - Cm7b5 - B7 - F7alt - B7 - Bbmaj7

En þá er þetta auðvitað orðin tóm þvæla og hljómagangur sem virkar engan veginn í raunveruleikanum. Enda markmiðið ekki að hlaða inn sem flestum hljómum, heldur að finna hljóma og skala skylda þeim upprunalegu, sem aftur gefur endalausa möguleika við útsetningar og sóló. Og þarna leynist óhemja af "sándum" sem virka, ef vel er leitað. Og svona mætti auðvitað halda endalaust áfram. Þetta er bara forskólinn.

Og þannig er svarið við spurningunni. Hvar er Hugi? Tjah, hann er búinn að sitja og hlusta á djass, spila djass, stúdera djass, hugsa um djass. Ég er orðinn fullgildur djassfíkill, eins og ekki hafi verið nóg fyrir.

(þessi færsla var í boði kennarans míns sem er snillingur og er endalaust hægt að hlusta á tala um hjómaferli og skalaval meðan fingurnir á honum rölta um píanóið)