Hugi Þórðarson

Idi Amin

Einhverja nóttina í vikunni vaknaði ég kófsveittur og titrandi eftir æstar draumfarir. Ég vissi að það var nokkuð vonlaust að ég næði að sofna strax aftur (erfitt eftir að hafa verið myrtur á hrottalegan hátt af andsetinni samstarfsstelpu) svo ég ákvað lesa mér aðeins til um Idi Amin. Eins og fólk gerir þegar það á erfitt með að sofna.

(Amma las alltaf til að svæfa mig - en hún átti ekki mikið af bókum og las alltaf fyrir mig úr ævisögu Idi Amin. Við kölluðum hann "Idi lokbrá". Alveg satt.)

En já, eins og venjulega þegar ég ætla að finna lesefni þreifaði ég eftir tölvunni (sem liggur oftast við hliðina á mér í rúminu), gúglaði "Idi Amin Wikipedia" og smellti á fyrsta hlekkinn sem kom upp. Og svo las ég. Greinin var alveg agalegt torf og ég var greinilega orðinn mjög þreyttur því ég skildi ekkert í textanum. Þetta var hrikalega illa skrifað. Bara tóm þvæla. Eftir þriðju yfirferðina á fyrstu málsgreininni var ég farinn að örvænta - fékk ég kannski heilablóðfall um nóttina og kunni ekki lengur að lesa?

Skyndilega kviknaði lítið svefndrukkið ljós í heilanum á mér.

Af þessu lærði ég þrennt:

  1. Ég kann ekki indónesísku.
  2. Þegar maður er þreyttur, þá á maður að fara að sofa.
  3. Það borgar sig að skoða heiti hlekkja áður en maður smellir á þá á Google.

Greinin: http://id.wikipedia.org/wiki/Idi_Amin