Hugi Þórðarson

Nikkan

Ég er búinn að vera með harmonikku í láni undanfarið. Að hluta vegna þess að bakið á mér þolir ekki lengur að ég sé að dragnast með píanóið í útilegur og partý, en þó fyrst og fremst vegna þess að harmonikkur eru kúl. Hver hefur eki séð hvernig ungar stelpur bráðna og kikna í hnjánum þegar góður harmonikkuleikari missir sig í villtum polka. Ójá, unga fólkinu í dag finnst alveg ýkt speisaðislega kúl að spila á harmonikku.

En já, bróðir minn er búinn að stofna hljómsveit og vantaði harmonikku í eitt laganna þeirra svo hann bað mig að senda sér nikkuna, þannig að ég tók hana með mér þegar ég fór í vinnuna á miðvikudaginn. Það var jökulkuldi úti og þar sem mér þykir vænt um menn og dýr og harmonikkur ákvað ég að taka hana með mér inn á skrifstofu svo henni yrði ekki kalt í bílnum. Hvað ef þetta væri nú ein af þessum töfraharmonikkum sem öðlast einhverntíman líf - þá mundi hún kannski stofna eigið fyrirtæki og verða rík og fræg og hlæja að mér "Hah, þú skildir mig eftir í ísköldum bílnum - færð ekki vinnu hjá mér" sem væri náttúrulega bara vandræðalegt. Það skal engin harmonikka eiga hönk upp í bakið á mér.

Altént. Ég hengdi nikkuna á mig og rölti inn í vinnuna.

Þegar ég kom inn mætti ég samstarfsstelpu og við buðum hvort öðru góðan daginn. En það sem mér fannst áhugavert var að það vakti ekki snefil af athygli hjá henni að þennan tiltekna dag var harmonikka hangandi utan á mér. Hún bara geispaði.

Hvað segir það? Er ég virkilega svo undarlegur að ekkert þykir eðlilegra en að ég rölti um í vinnunni með harmonikku klukkan átta á miðvikudagsmorgni? Og hversu langt get ég gengið? Hvað ef ég mæti á mánudaginn með ferskan karfa hangandi í neti framan á mér? Eða uppstoppaða önd límda á hausinn?

Jæja, í kjölfarið á þessu er ég alltént að íhuga að gera nikkuna bara að hluta af mínum daglega klæðnaði. Ganga bara alltaf um með harmonikku. Hvort sem ég er í ræktinni, að halda fyrirlestra eða sitjandi á fundum. Og ef einhver spyr hvað málið sé með harmonikkuna, þá svara ég "Harmonikka? Hvaða harmonikka? Hvað ertu að tala um? Ertu eitthvað geggjaður?".