Hugi Þórðarson

ISG

Ég ætla að blogga aðeins um Ingibjörgu Sólrúnu.  Það hefur heldur betur verið í tísku undanfarin misseri.  Mitt blogg er þó mjög óhefðbundið ISG blogg.  Það snýst nefnilega ekki um að heimfæra á hana allt böl heimsins og blöskrast á því hvað hún er nú ömurleg.  Hitt þó heldur.  Ég hreinlega átta mig ekki á þessari tísku að tala illa um ISG.  Það er ekki langt síðan hún var mjög vinsæl og virtur stjórnmálamaður.  Messias andstæðinga xD jafnvel.  Hvað gerðist svo eiginlega?  Ég get ekki séð að ISG hafi breyst.  Málstaður hennar hefur ekki breyst.  Fas hennar og málflutningur hefur ekki breyst.  Hún hefur náð sér í viðbótarmenntun - sem varla ætti að koma neinum illa.  Hvað gerðist eiginlega?
 
Það sem er a.m.k. alveg á hreinu er að það er í tísku að vera illa við ISG.  Það er ljóst að ekkert hefur gerst sem kallar á þessa umbreytingu í viðhorfum þjóðarinnar, þannig að þetta verður að skrifast á tíðaranda eða tísku.  Vissulega má færa rök fyrir því að ISG hafi verið "í tísku" í borgarstjóratíð sinni og eðlilegt að það gangi að einhverju leyti til baka.  En maður finnur bara varla þann aðila þessa stundina sem er ekki tilbúinn að taka tískuvagninn og pirra sig á greyið kellunni.
 
Mér finnst þetta sorglegt.  Mér fannst líka sorglegt hvernig bæði Davíð og Halldór voru hraknir út úr pólitík - báðir í kjölfar sambærilegrar tískubylgju, en þeir fengu þó a.m.k. tækifæri á því að gera mistök og fengu almenning á móti sér með aðgerðum sínum.  Davíð var stórgóður stjórnmálamaður og er ég hræddur um að það verði langt í næsta "Davíð".  Halldór var líka ágætur - en vissulega ekki gallalaus (frekar en aðrir).
 
En hvað með það - hvað gerðist fyrir ISG?  Er áróðursmaskína xD virkilega svo öflug að henni hefur tekist að snúa almenningsálitinu?  Eldast konur svona illa í pólitík?  Well.... ekki veit ég, en ég óska hér með eftir tillögum.  Það virðist nefnilega vera að þrátt fyrir þessa miklu anti-ISG tísku, þá finnst mér þeir sem tala illa um ISG sjaldnast geta fært rök fyrir því á hverju sú skoðun byggir.
 
Sjálfum líst mér bara ágætlega á leiðtoga allra stjórnmálaflokkanna.  Í öllum tilfellum finnst mér formaðurinn draga gæði flokksins upp - og svoleiðis á það að vera.  Gallar flokkana felast því í öðru...  (og öðrum)