Hugi Þórðarson

Glaðningur

Við Blakkur brugðum undir okkur betra dekkinu í góða veðrinu í dag og rúntuðum aðeins um Suðurlandið með erlenda gesti.

Einn af viðkomustöðunum var Seljalandsfoss. Þegar við vorum að leggja af stað frá bílnum að fossinum tók ég eftir tveimur stelpum sem höfðu fest bílaleigubílinn sinn í malarbing rétt hjá okkur og spóluðu þar með miklum látum. Ég rölti að bílnum þeirra, opnaði dyrnar, brosti mínu blíðasta og spurði á útlensku hvort ég gæti aðstoðað. Svarið var skjannahvítt bros á fallegu andliti og feginsandvarpið "Oh, please" - svo við Blakkur sýndum herramennsku og kipptum stúlkunum úr krísunni.

Eftir að björgunaraðgerðum lauk kvaddi ég stúlkurnar og fór með gestina í göngutúr bak við fossinn, eins og maður gerir þegar maður heimsækir Seljalandsfoss. Og þegar við komum aftur að bílnum duttu mér allar dauðar lýs - óvæntur glaðningur við bílstjórahurðina.

Ég hef alltaf sagt það og segi það enn - heimurinn er pakkfullur af fallega inrættu fólki.

Hef þó ekki þorað að borða súkkulaðið ennþá - grunar að það sé fullt af einhverju nauðgunarlyfi. Glampinn í augunum á stelpunum var aðeins of augljós.