Hugi Þórðarson

Með lögum skal lýðinn rugla

Ég var að yfirfara skil á vefverkefni í vinnunni um daginn þegar ég rakst á eftirfarandi setningu:

"Í þeim tilvikum þegar hópbifreið, önnur bifreið sem er meiri en 3.500 kg að leyfðri heildarþyngd eða bifreið með með eftirvagn eða skráð tengitæki er ekið yfir lögleyfðum ökuhraða skal beita sektarfjárhæð að viðbættu 20% álagi."

Þegar ég var hættur að hlæja þýddi ég textann yfir á íslensku:

"Ef bifreiðin er hópbifreið, þyngri en 3.500kg eða með eftirvagn eða tengitæki hækkar sektin um 20%."

Eftir smá fyrirgrennslan kom í ljós að þarna hafði slysast inn óbreyttur texti úr reglugerð. Ég skil hvað liggur að baki, málfar í lögum og reglugerðum verður jú að vera ítarlegt og samræmt, en fyrr má nú rota en dauðarefsa. Flest orðin í fyrri setningunni hafa engan tilgang og þótt "þýðingin" mín sé líkast til ekki lagalega pottþétt má nú alveg skrifa gott mál sem kemur öllu nauðsynlegu á framfæri.

En þetta er náttúrulega snilld. Ég ætla að byrja að tala svona: "Í þeim tilvikum þegar pönnukökuuppskrift þessi er notuð fyrir fleiri en fimm, það er sex, skal beita skráðu hveitimagni að viðbættu 20% álagi."

Og hvað er málið með unga fólkið í dag? Óklippt og illa til haft, gangandi um lyktandi af kannabisefnum. Nöldur nöldur nöldur. I'M OLD! WHERE'S MY PRUUUUNE JUUUIIICE!