Hugi Þórðarson

Það liggur fyrir

Ligg fyrir með einhverja viðbjóðspest, búinn að láta mig reka milli draums og vöku og hlusta á útvarpið. Einn með sjálfum mér og ruglinu í hausnum á mér. Allt mjög spennandi.

Ef maður liggur fyrir, er maður þá fyrirliggjandi? Það liggur ekki fyrir.

Í hádegisfréttunum var viðtal við fótboltaþjálfara sem sagðist ætla að gefa sér góðan tíma í að slípa vankantana á liðinu sínu fyrir næsta leik. Hann á allan minn stuðning, hans lið verður örugglega með langflottustu vankantana. Það liggur fyrir.

Varðandi bremsubarka - ætli maður geti skipt þeim út fyrir látúnsbarka? Gæti ég ekki neglt Garðar Cortes undir bílinn minn og þjálfað hann til að spyrna niður fótunum í hvert skipti sem ég stíg á andlitið á honum? Það liggur ekki fyrir. En það mundi a.m.k. ekki laga vælið í bremsunum. Það liggur fyrir.

Bíllinn minn þjáist af barkabólgu - bremsubarkabólgu. Er hægt að segja um feitan tenór að hann þjáist af látúnsbarkabólgu? Það liggur ekki fyrir.

Ég er ekki hannaður til rúmlegu í meira en 10 tíma í senn. Það eru súrir, steiktir hlutir, hættulegir mannkyninu, að gerast í hausnum á mér. Það liggur fyrir.