Hugi Þórðarson

Bremsur hvað...

Jæja, Blakkur er bilaður. "Sjálfvirki strekkjarinn" er víst ekki að "strekkja" allt sem þarf að "strekkja" þarna undir "vélarhlífinni". Letingi sem hann er. Hefði átt að hlusta á ömmu í æsku, "Maður á aldrei að treysta sjálfvirkum strekkjara" var hún vön að segja, eða "Pappakassar þessir sjálfvirku strekkjarar". Og skellti svo í góm.

Svo ég tók aðra törn á Golfinum Göbbels í dag, reif undan honum afturdekkin, fór úr að ofan (var reyndar í bol undir skyrtunni) og barði bremsuskálarnar sundur og saman með berum höndum (eða hugsanlega sleggju) - og tókst eftir talsverðar barsmíðar að frelsa skálarnar undan oki handbremsubarkans! Sigri hrósandi festi ég dekkin undir aftur, settist í ekilssætið, rúllaði bílnum út á Hofsvallagötuna og steig gasolíufetilinn í botn svo drundi í báðum hestöflunum. En. Fljótlega uppgötvaði ég að ég hafði losað bremsurnar aðeins of vel - það virkuðu engar bremsur á bílnum yfir höfuð. Sem var slæmt.

Ég hafði aldrei gert mér grein fyrir því hvað það að stoppa er mikilvægur hluti af því að keyra.

Svo ég ók varlega aftur heim í hlað, skóf leifarnar af gömlu konunni sem ég keyrði á af stuðaranum, hirti þær matvörur sem mig vantaði úr pokanum hjá henni, gróf líkið, lagði bílnum og rölti blístrandi upp í íbúð til að laga mér tebolla.

Volkswagen-gúrúið mælir með að ég skoði stöðu bremsuvökva og rannsaki innihald bremsuskálanna. Geri það í vikunni.

Kostnaður við Göbbels þegar hér er komið:

  • Flutt frá fyrri færslu: kr. 13.950.-
  • Matvörur (þ.á.m. Royal-búðingur, mysa og pralín-brjóstsykur): kr. -930
  • Gervitennur, lítið notaðar: kr. -1.000.-
  • Samtals: kr. 12.020.-

Alltaf að græða.

Mig vantar samt ennþá bílskúr.