Hugi Þórðarson

Eitt orð

Er hægt að lýsa manneskju í einu orði?

Ég lá í makindum um daginn og las. Skyndilega og fyrirvaralaust datt heilinn í mér í gang svo ég lagði bókina frá mér og fór að hugsa - um texta, og hvernig hægt er með örfáum orðum að skapa ljóslifandi fólk úr engu. Þá er ég ekki að tala um aðalpersónur sem fá oftast mikið pláss og eru vel skilgreindar, heldur þennan aragrúa annars fólks sem kemur við sögu - aukapersónurnar.

"Skuggalegur maður gekk hjá".
"Afgreiðslukonan var góðleg".
"Blaðberinn var lítill og brosmildur".

Við fáum lítið sem ekkert að vita - höfundurinn fleygir kannski í okkur einu eða tveimur lýsingarorðum - en samt skapar maður samstundis í huga sér heila persónu með útlit, forsögu, ilm og allt það heila.

Þetta finnst mér heillandi.

Er hægt að snúa þessu við og lýsa lifandi fólki í einu orði? Og væri maður aukapersóna í bók, hvaða lýsingarorð fengi maður í sinn hlut? Ég var að ræða þetta við vinkonu mína um daginn og hún úthlutaði mér orðinu "góðhjartaður". Ég reyndist hinsvegar ekki góðhjartaðri en svo að ég úthlutaði henni orðinu "lúmsk" (enda var það tvímælalaust lymskubragð hjá henni að kalla mig "góðhjartaðan" - hún vill eitthvað frá mér).

Ímyndunarafl... Besta afl í heimi.