Hugi Þórðarson

"Pabbi"

Ég er orðinn "pabbi".

Ég fór í morgun og sótti karl föður minn út á flugvöll en hann er að fara í dag á ástar- og vináttumót hins mikilsvirta "Félags rafeindatæknifræðinga sem starfa við skipaflotann".

Við systa brugðum okkur með karlinn í Smáralindina svo hann gæti fatað sig upp og þar tylltum við okkur inn á veitingastað til að fá okkur að borða.

Í miðri máltíðinni komu tvær stelpur gangandi að mér, svona tólf-þrettán ára. Önnur þeirra leit sakleysislega á mig og sagði hátt: "Pabbi, ertu til í að láta mig fá vasapeninga?".

Það var greinilega eitthvað plott í gangi - kannski sést hvað ég er utan við mig, og þær héldu að ég mundi rétta þeim peninga. Eða kannski átti ég að verða svo hissa að ég léti þær bara fá peninga. En ég er ekki auðhissaður. Ég hinsvegar heyrði kjálkann á pabba detta í gólfið á bakvið mig.

Hugi: "Ekki séns. Þú ert ekki búin að þrífa herbergið þitt eins og þú lofaðir og ættir að skammast þín."

Það kom skelfingarsvipur á stelpurnar og þær hurfu. Og mér gekk ágætlega að sannfæra pabba um að hann þyrfti ekki að bæta þessu splunkunýja áður-óþekkta barnabarni á jólagjafalistann. - En skömmu síðar birtust þær aftur.

Stelpa: "Pabbi, ef þú lætur mig fá peninga þá lofa ég að þrífa herbergið mitt á morgun."
Hugi (byrstur og hávær): "Dóttir sæl. Þú ert ekki búin að slá garðinn, ekki búin að vaska upp þessa vikuna eins og þú lofaðir og þú hefur ekki þrifið herbergið þitt í tvær vikur. Það eru farin að ráfa hungruð bjarndýr fyrir utan það! Ég sé ekki hvers vegna ég ætti að treysta þér fyrir peningum."
Stelpa: "Gerðu það? Bara hundraðkall eða eikkvað?"
Hugi: "Kemur ekki til mála. Farðu og spurðu mömmu þína."

Stelpurnar flissuðu og forðuðu sér.

Hvernig er það, ganga krakkar bara um betlandi í Smáralindinni í dag? Og er "pabbi" orðið eitthvað unglingaslangur yfir óvenju brosmilda og vel tennta unga karlmenn?

Tómt vesen, nú þarf ég að eyða næstu vikum í að sannfæra foreldrana um að borgin sé ekki full af börnum á mínu framfæri. Næst þegar ég fer þarna uppeftir tek ég hrísvöndinn með mér og hýði allt þetta unga fólk.