Hugi Þórðarson

Kettir og mýs

Ég fékk mér smá kvöldgöngu meðfram Ægissíðunni áðan.

Á miðri leið í myrkrinu rakst ég á kött sem lá við hlið stígsins. Þar sem ég er haldinn ákveðinni einhverfu, sem lýsir sér þannig að ég verð að gæla við allt lítið, sætt og loðið sem ég sé, beygði ég mig niður að honum. Skyndilega stökk eitthvað smávaxið í áttina að mér úr grasinu milli okkar kisa en kisi tók viðbragð og geystist af stað á eftir því.

(Ég vil ímynda mér að fyrirbrigðið sem kom úr grasinu hafi verið mús, frekar en einn af þessum risavöxnu Skerjafjarðarkakkalökkum sem geta étið heilan dverg með einhjóli og öllu með miðdegiskaffinu).

Músin skynjaði samstundis að nærstaddur var músavinur og leitaði skjóls hjá mér - með því að hlaupa umhverfis fæturna á mér. Og kattarfjandinn fylgdi fast á eftir ("kisi" varð að "kattarfjanda" þegar hann fór að elta músina). Svo tók við æsispennandi eltingaleikur, og meðan Tommi og Jenni þutu í kringum mig, undir mig og framhjá mér gat ég ekkert gert annað en að stíga varlega til jarðar og vona að ég mundi ekki (a) kremja músargreyið eða (b) finna eltingarleikinn enda í buxnaskálminni minni.

Eftir talsverða hringavitleysu urðu dýrin ringluð og ráfuðu eitthvað út í myrkrið, en ég horfði á eftir þeim í þungum þönkum um tilgang lífsins - og hvort mýs bragðist vel.

Mikið fjandi geta mýs og kettir hlaupið hratt.