Hugi Þórðarson

Is nice

Jólin nálgast og við systa skiluðum okkur heim til Norðfjarðar klukkan 12:00 að staðartíma í gær. Þetta er hluti af þeim forréttindum sem fylgja því að vera utanaflandipakk. Þegar jólin koma skilur maður bara íbúðina eftir í epískri rjúkandi rúst, pakkar niður nærbrók, náttbuxum og sokkapari og flýgur svo 400 kílómetra í burtu frá öllu klúðri og áhyggjum. Einfalt og þægilegt.

Og gærdagurinn lagði tóninn fyrir komandi daga:

9:15: Brottför frá Reykjavík.

12:00: Komin heim í slotið til mömmu og pabba. Mamma afsakar að ekkert sé til á heimilinu að borða.

12:03: Einfaldur málsverður: Kaffi, te, heimabakað brauð, rúgbrauð, ostar, heimabakaðar bollur, egg, rauðbeður, marineruð síld (2 tegundir), paté (fleirtala), pylsur og heimaþurrkaður þorskur. Ásamt meðlæti.

14:00: Veltum út um dyrnar. Meltingarganga.

15:00: "Kaffi" hjá Þóru frænku. Þóra afsakar að ekkert sé til á heimilinu að borða.

15:03: Einfaldur málsverður hjá Þóru: Ostar, heimabakað rúgbrauð, heimagerð kryddlegin síld, hrátt hangilæri með piparrótarsósu, heimabakað laufabrauð, heimagerðir sólþurrkaðir tómatar, fleiri ostar, grösug ólífuolía, nýbakaðar napóleonskökur með rjóma, Sambuca, Raki, bjór o.fl. o.fl. Og svo aðeins meira Raki.

18:30: Veltum út frá Þóru og förum aftur heim. Píanóleikur, almenn leti, bókalestur og sjónvarpsgláp.

23:00: Sofa.

Jól eru snilldaruppfinning. Það vantar fleiri jól í árið.