Hugi Þórðarson

Óverndað umhverfi

Ég bý í vernduðu umhverfi í Vesturbænum. Þegar ég segi "vernduðu", þá meina ég að umhverfis mig býr aðallega dauðvona (eða dáið) fólk og mesta hættan sem ég lendi í dags daglega er að vera kæfður úr umhyggju og náungakærleik.

Dauðvona (eða dáið) fólk er mjög vingjarnlegt.

Það kom mér því agnarlítið á óvart þegar ég steig í morgun út úr vernduðu íbúðinni minni og gekk niður verndaða stigann minn, að finna miða með eftirfarandi texta hangandi á vernduðu útihurðinni minni.

Notice the person to put his key into other people's door:

I heard that you tried to open my door many times,
I am always at home.
Please do not put your key into the wrong door again if you make a mistake.

Otherwise, I call police to arrest you.

Ég las miðann tvisvar. Svo klóraði ég mér í hausnum, geispaði, kjammsaði aðeins á tungunni og leit svefndrukkinn í kringum mig til að athuga hvort ég hefði fyrir einhverja undarlega óheppni flutt í Breiðholtið um nóttina. Svo virtist ekki vera.

Svo nú bý ég við nýjan raunveruleika í Vesturbæ óttans. Og ég er ekki enn búinn að gera upp við mig hvort hræðir mig meira. Morðóða þrjóska gamalmennið sem gengur í hringi í blokkinni og reynir ítrekað að troða lyklinum sínum í allar skrárnar, eða móðursjúki útlendingurinn sem er ALLTAF heima hjá sér og situr titrandi, horfir á dyrnar og tautar tárvotur "you no put your key in my wrong door, I call police".

Það er svo spennandi að búa í svona siðlausu glæpahverfi...