Hugi Þórðarson

Andlitshár

Þegar ég vaknaði í morgun var ég fúlskeggjaður. Verulega illa fúlskeggjaður. Ég gat hvorki andað né séð né hugsað fyrir hári, og þegar ég ætlaði að standa á fætur steig ég á skeggið og flaug á andlitið.

Svo ég greip til aðgerða. Ég vafði skegginu umhverfis höfuðið á mér, hentist brosandi á fætur, stökk inn á bað, reif náttfötin af stæltum líkamanum og renndi mér í sturtu þar sem ég makaði vel tónaða magavöðvana upp úr olíu þar til ég glansaði eins og grískur guð.

Nei, heyrðu.. Afsakið, ég er að rugla saman .. það var sjampóauglýsing.

Já... Allavega.

Ég fór semsagt í sturtu og rakaði mig. Það sem stóð eftir að loknu verki voru þykkir rauðir bartar niður á herðar og yfirvaraskegg sem hefði gert Otto von Bismarck afbrýðisaman. Mér fannst þetta alveg hreint einkar flottur stíll, sem er til marks um að maður á ekki að taka mikilvægar ákvarðanir um andlitshár fyrir klukkan 8 á morgnana.

Það varð mér og öðrum sem þurfa að umgangast mig í dag til happs að ég sá sjálfan mig speglast í glugga rétt áður en ég fór út, og áttaði mig þá samstundis á því að ég er bara einfaldlega ekki búinn að leika í nándar nærri nógu mörgum bæverskum leðurklámmyndum til að bera þetta útlit. Svo ég fór inn og kláraði dæmið.

Hjörleifur Guttormsson fær að halda titlinum "Steiktasta andlitshárið" enn um sinn.