Hugi Þórðarson

Hilmir snýr heim

Búinn að pakka. Flugvélin fer eftir 10 tíma og ég verð kominn heim eftir rúman sólarhring.

Ég ætlaði að vera viðurstyggilega duglegur að skrifa hérna úti, enda nóg að skrifa um. Ó já. En auðvitað gafst aldrei tími til skrifa, alltof gaman. Dagarnir fóru í fróðleiksþamb, forritun, nördaskap og kjaftagang en kvöldin fóru í átveislur með nýbökuðum vinum og kunningjum.

En svo maður líti á björtu hliðarnar, þá á ég altént núna útistandandi nokkur heimboð - þar af tvö sem ég er staðráðinn í að nýta sem fyrst; til Victoriu í Kanada og Wellington í Nýja Sjálandi. Þessi tvö valdi ég ekki vegna staðsetningarinnar, heldur vegna þess að pörin sem buðu mér á hvorn stað voru vægast sagt yndislegt fólk (og mig grunar líka að þau ætli að nýta mitt heimboð til Íslands - eða það vona ég).

Vika. Og aldrei þessu vant langar mig ekkert sérstaklega heim. San Francisco er... næs.