Hugi Þórðarson

Kvef

Ég náði mér í hressandi kvef (eða hugsanlega berkla) síðasta daginn minn í Bandaríkjunum. Síðustu nóttina úti hóstaði ég fjölraddað og húðaði allt mitt nánasta umhverfi glansandi slími í öllum regnbogans gulum og grænum litum. Mjög gefandi.

Svo ég fór á fætur um miðja nótt og gerði mér ferð á náttfötunum og inniskónum út í Walgreens - búðina sem selur allt. Ég þrammaði þangað inn, fölur og þvalur, með grænleitt slím lekandi út um munnvikið, og spurði hvað ég gæti fengið við kvefi og hósta. Allir viðstaddir hrópuðu "NyQuil!" svo ég keypti það, fór heim, tók tvo sopa - og lamaðist. Ég svaf eins og grjót í 8 tíma. Það var kraftaverk að ég skyldi vakna í flugið. Ég svaf í leigubílnum á leiðinni á flugvöllinn. Ég svaf á flugvellinum. Ég svaf í flugvélinni frá San Francisco til Minneapolis. Svo svaf ég í tvo tíma í Minneapolis og svaf svo út allt 6 tíma flugið heim. Vaknaði á þriggja tíma fresti til að hreinsa lungun (sem var mjög falleg og sæt lítil athöfn, sem ég minnist með söknuði).

En ég vaknaði alheill. Takk, NyQuil.

Var svo að velta því fyrir mér í gær hvers vegna þetta fæst ekki á Íslandi, en svarið er auðvitað augljóst. Nánari fróðleikur frá lyfjaeftirlitinu.