Hugi Þórðarson

Búmm, krass

Ég var á akstri austur eftir Sæbrautinni (sem heitir víst Kalkofnsvegur á þessu svæði) á sunnudaginn þegar skyndilega og algjörlega óumbeðið birtist fyrir framan mig lítill, ljótur og fjólublár bíll í mínu plani en með rangstæðan stefnuvektor. Ég brást auðvitað snarlega og hárrétt við, tiplaði á bremsuna, greip þéttingsfast um stýrið og keyrði hann svo í klessu.

Ég var fremstur í nokkuð langri bílaröð sem öll var á 50-60 km hraða, svo það var hávær og ómstríð sinfónía bremsu-, flautu-, skrens- og bölvhljóða sem hófst fyrir aftan mig þegar ég nauðhemlaði og fullkomlega óskiljanlegt að ekki skyldi verða meira fjör úr þessu. Miðað við óhljóðin átti ég von á að sjá risavaxna hrúgu af líkum og bílflökum þegar ég leit um öxl.

En, það var allt í góðu að aftan svo þegar andrúmsloftið róaðist andvarpaði ég, leit út um framrúðuna og fylgdist með litla, ljóta, fjólubláa bílflakinu hökta út í vegarkantinn og staðnæmast (persónulega fannst mér það yndislegt að hann gaf stefnuljós út af götunni). Út úr því steig hvekktur maður. Ég bretti upp ermarnar, tísti aðeins, steig út úr eigin bíl og gekk sallarólegur og skælbrosandi í áttina að honum, pakkedí-pakkfullur af Hugadrenalíni™ og staðráðinn í að spara réttar- og tryggingakerfinu tíma og peninga með því að myrða hann bara strax, sjálfur, með berum höndum.

Mér finnst nefnilega ekki snjallt að keyra þvert út á stofnbraut í veg fyrir þunga umferð og stoppa svo bílinn sinn þar. Og sem ríkisstarfsmaður hef ég fullan rétt til að framkvæma borgaralega aftöku.

En þegar við mættumst leit hann á mig hvolpsaugum og sagði með vonleysisrómi og norskum hreim: "Oooooh... Fyyyyrirdjefþu". Og það er ekki annað hægt en að fyrirgefa sorgmætum litlum Norðmanni. Ein norsk lítil sönglnóta og hjartað í mér bráðnaði. Grieg hvað.

Ég var ekki með tjónaskýrslu í bílnum svo ég hringdi í löggumann. Meðan við biðum spjallaði ég við Norðmanninn og jafnvel þótt hann kynni ekki umferðarlögin og keyrði eins og Norðmaður líkaði mér orðið ágætlega við hann þegar við kvöddumst. Fann eiginlega svolítið til með honum, því bíllinn hans (sem amma hans átti reyndar) var í spaði. En hann var samt heppinn, því ég keyrði inn í aftursætið. Hefði hann bremsað sekúndubroti fyrr þá hefði hann orðið að norskri kjötstöppu.

Þessir Norðmenn... Agalegt vesen á þeim alltaf.