Hugi Þórðarson

Stóri dagurinn nálgast

Afsakið, þögnina, er búinn að vera upptekinn við smíði á SHS (Stóra Hluta Skellasamanaranum).

Þetta er allt mjög spennandi, í næstu viku kælum við græjuna rétt niðurundir alkul, setjum Guðna Ágústsson öðrumegin og Davíð Oddsson hinumegin, hröðum þeim í 97% af ljóshraðanum og skellum þeim svo saman til að skoða innihaldið. Með þessu munum við væntanlega í fyrsta skipti geta sannað óvéfengjanlega tilvist Besser-Visser eindarinnar sem er talin gefa pólitíkusum um 99% af massa sínum.

Og af gefnu tilefni, heimurinn mun ekki enda - alveg rólegar þarna á Barnalandi. Í versta falli endum við með óvenju náið ríkisstjórnarsamstarf framsóknarflokks og sjálfstæðisflokks undir stjórn tvíhöfða skrímslis. En skv. útreikningum er það þó afar ósennilegt.