Hugi Þórðarson

Höfuðóvinur alþýðunnar

Ég skrapp í badminton í fyrrakvöld - u.þ.b. tveimur tímum eftir að forsætisráðherrann okkar kvaddi þjóðina skjálfandi og tárvotur með orðunum "Guð blessi Ísland".

Eins og venjulega geymdi ég veskið mitt og lyklana í hólfi í afgreiðslunni meðan ég sveif á vængjum gleðinnar um badmintonvöllinn. En - ég var eitthvað utan við mig og var búinn að gleyma númeri geymsluhólfsins þegar ég kom aftur af vellinum, svo ég bað afgreiðslumanninn kurteislega að gramsa í skápunum og finna lyklana mína. "Ekkert mál" sagði hann. "Á hvernig bíl ertu"?

Ég svitnaði aðeins, leit varlega í kringum mig og hvíslaði lágt yfir borðið: "Range Rover".

Það sló þögn á viðstadda og andrúmsloftið varð þrúgandi. Eldri hjón horfðu á mig með fyrirlitningarsvip og hvísluðust á. Ég sá varirnar á konunni mynda orðið "gjaldeyrisþjófur" uppvið eyrað á manninum, en hann hristi höfuðið hægt. Lítið barn benti á mig og fór að gráta, móðir þess tók utan um það og horfði reiðilega á mig. Afgreiðslumaðurinn svaraði "Jæja, já..." og fór svo að leita að lyklunum mínum.

Jæja jæja, smá ýkjur kannski - en það varð samt til skemmtilega súrrealísk stemning. Á einni sekúndu fann ég hvernig ég varð höfuðóvinur alþýðunnar útaf greyið gamla Blakki mínum. Og mig dauðlangar að gera þetta aftur. Ætla samt að vera betur undirbúinn næst, og þegar allir eru að horfa á mig ætla ég að draga danska kjúklingabringu upp úr vasanum og þurrka svitann af enninu með henni.