Hugi Þórðarson

Já, ráðherra

Í lok nóvember skrifaði ég þingmanninum mínum, sem núna er ráðherra í sitjandi stjórn, stutt bréf og spurði hvort hann væri fylgjandi því að boðað yrði til þingkosninga í vor.

Ég var að fá svarið, aðeins rúmum mánuði og tveimur ítrekunum síðar - og það var nákvæmlega það svar sem ég átti von á, í stuttu máli eitthvað í stíl við "Nei, við vorum réttilega kosin 2007 og ég sé enga þörf á kosningum í vor".

Ég íhugaði að svara honum með einhverjum löngum pistli og reyna að koma honum í skilning um að þetta er *búið* hjá þeim - en það þjónar bara nákvæmlega engum tilgangi. Það sást svo augljóslega á bréfinu að stjórnin býr í la-la-landi og er gjörsamlega, fullkomlega úr sambandi við almenning, skilur ekki aðstæður og tekur engum rökum. Og ef maður er rjúpa, þá á maður ekki að sóa tímanum í staura.

Ég vil kosningar í vor. Og það verða kosningar í vor.