Hugi Þórðarson

Ekki sonur Satans

Ég vaknaði í fyrrinótt við eitthvert undarlegt brambolt frammi í stofu. Ég reisti mig varlega upp og var að fara að smeygja mér í náttbuxurnar þegar Karl Sigurbjörnsson, Gunnar í Krossinum og Snorri í Betel ruddust skyndilega inn í svefnherbergið. Snorri benti á mig þar sem ég stóð svefndrukkinn með annan fótinn í náttbuxnaskálminni og hrópaði "þarna er hann - sá illi!" - svo þustu Karl og Gunnar fram, gripu undir sitthvorn handlegginn á mér og héldu mér föstum, þrumandi biblíuvers á latínu (eða smákökuuppskriftir, ég veit það ekki, ég kann ekki latínu) á meðan Snorri rakaði af mér hárið.

Þegar Snorri var búinn að raka allt af byrjuðu þeir að rannsaka hársvörðinn á mér. Eftir nokkra stund var Karl orðinn eitt spurningarmerki í framan og sagði hugsi "ég skil þetta ekki, spænski hellamunkurinn undir Hallgrímskirkju sagði að fæðingarbletturinn mundi birtast að næturlagi sunnudags í föstuinngangi". Svo hvessti hann augun á mig og spurði "Þú illi! Er þetta ekki Hagamelur 51, íbúð 2C!". Ég andvarpaði og skýrði kurteislega að þetta væri Hagamelur 53 - 51 væri næsti stigagangur. Þeir urðu svolítið vandræðalegir, en ég sagði þeim að þetta væri ekkert mál og algengur misskilningur. Svo gaf ég þeim kaffi og skonsur áður en þeir fóru yfir í næstu íbúð til að éta hjartað og lifrina úr Gunnari nágranna mínum, sem reyndist vera antikristur. Sem mig hefur raunar grunað lengi.

Og nú er mér kalt á hausnum. Og ég er ekki antikristur. Eintóm vonbrigði alltaf.

{macro:km:picture id="1000578"}