Hugi Þórðarson

Strimillinn

Ég er búinn að ganga með hugmynd í maganum um nokkurt skeið. Um sexleytið í gærkvöldi hófust svo loks kröftugar hríðir með tilheyrandi útvíkkun, og ég hrinti henni í framkvæmd.

Hugmyndin gengur undir nafninu Strimillinn og hér er stutt skýring á henni eins og ég skrifaði hana á vefinn - ég skrifa svo eitthvað skemmtilegra og gáfulegra um þetta þegar fram í sækir.

Þökk sé algjöru hruni krónunnar hefur vöruverð á Íslandi undanfarið farið hratt hækkandi.

ASÍ og Neytendasamtökin gera reglulega verðkannanir í verslunum og þær kannanir eru allra góðra gjalda verðar. En stundum hefur hent að þar koma upp villur, eða að eigendur verslunar rengja tölurnar sem birtar eru í könnunum - þegar þetta hendir þá er erfitt fyrir þá sem annast verðkannanir að hrekja staðhæfingar verslunareigenda.

Á hverjum degi verða hinsvegar til margir kílómetrar af óhrekjanlegum verðkönnunargögnum í verslunum landsins. Þetta eru kassakvittanirnar, strimlarnir, sem sýna svart á hvítu hvað við greiðum fyrir vörur.

Hugmyndin að baki Strimlinum er að virkja almenning í landinu til að veita verslunareigendum aðhald við verðlagningu. Einnig verður, þegar fram í sækir, fróðlegt að safna tölfræði úr þessum gögnum og bera saman vöruverð á milli verslana, landshluta, þéttbýlis og dreifbýlis - og jafnvel verslana erlendis.

Þú getur stutt þetta prufuverkefni með því að senda inn þína eigin innkaupastrimla, sérstaklega þætti mér áhugavert að fá í grunninn gögn af landsbyggðinni og erlendis frá.

Gjörið þið svo vel: http://strimillinn.karlmenn.is/