Hugi Þórðarson

Opinn kóði

Umferðarstofa er svöl. Svo svöl að við göngum í úlpum á daginn, forstjórinn okkar er kallaður "Svali S. Svalsson" í daglegu tali, orðið "svalur" stigbreytist "svalur, svalari, Umferðarstofa" og við erum með sjúkraliða í þjónustuverinu sem framkvæmir bráðaaðgerðir á kvenfólki með kiknaða hnjáliði eftir kynni við einskæran svalleika goðumlíkra þjónustufulltrúa okkar.

Og hvers vegna erum við svöl. Jú, fyrir utan geislandi gleðiorku, hátt hlutfall rauðhærðra, góða húð og há, brosmild enni, sem eru til marks um gáfur og hógværð, erum við byrjuð að opna grunnkóðann okkar og setja á Google Code.

Og afsakið, en mér finnst það svalt.

Þetta er búið að vera á dagskrá í nokkurn tíma, enda finnst mér það alveg dagljóst að kóði sem skrifaður er af ríkinu (eða fyrir það) og greiddur af almenningi á að vera almenningseign.

Nú, og með því að gera kóðann okkar frjálsan og opinn:

  • Gefst öllum kostur á að nota hann.
  • Endurnýting táknar sparnað. Hvað ætli sé t.d. búið að skrifa óþarflega mörg forrit á Íslandi til að lesa gögn úr þjóðskrá?
  • Meiri kröfur eru gerðar til okkar, að vanda til verka og smíða læsilegan, áreiðanlegan kóða.
  • Og ef villur leynast í kóðanum er líklegra að þær finnist. Betur sjá augu en auga. (en það eru samt auðvitað engar villur þar *hóst*)
  • Og við fáum vonandi eitthvað af kóða til baka frá samfélaginu þegar fleiri fara að gera slíkt hið sama.

Enn sem komið er er lítill hluti af hugbúnaði okkar kominn á Netið en við leggjum mikla áherslu á að kóði sem við smíðum endi opinn og safnið mun stækka hratt á næstu vikum.

Ég er að vona að sem flestar ríkisstofnanir fylgi fordæmi okkar og ráðist í að opna kóða hjá sér. Því að stofnanir með lokaðan kóða eru pappakassar.

http://code.us.is/